Cooltech selur frystibúnað í rækjuskip
Útgerðarfyrirtækið Amp Fisheries ltd. á Nýfundnalandi hefur nýlega fest kaup á frystibúnaði frá Cooltech í Kanada og Kælitækni.
Um er að ræða hefðbundið dælukerfi fyrir rækjufrystiskip sem nú er í smíðum í St. Johns. Kerfið samanstendur af fjórum Bitzer skrúfuþjöppum, Bitzer sjóþolnum eimsvala, dælukút, tveimur Hermetic kælimiðilsdælum, iðnstýrivélum frá Elreha, Hansen og Danfoss stopp- og stýrilokum svo og ýmsum fylgihlutum.
Það sem er óvenjulegt við þetta kerfi er að notaðar eru hálfsambyggðar (semi-hermetic) skrúfuþjöppur, nokkuð sem er sjaldgæft í stærri dælukerfum um borð í frystiskipum. Ástæðan fyrir þessu er plássleysi um borð en ekki síður sú staðreynd að Bitzer skrúfuþjöppurnar hafa staðið sig frábærlega vel um borð í íslenskum skipum.
Kerfið er hannað af Kælitækni og Cooltech. Cooltech mun einnig sjá um eftirlit og uppstart á kerfinu vestra.